23.02.1967
Neðri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

126. mál, launaskattur

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Um frv. til l. á þskj. 231 um breyt. á l. nr. 14 frá 15. marz 1965, um launaskatt, flutt af þeim Birni Pálssyni og Jóni Skaftasyni, langaði mig til að segja nokkur orð.

Því miður var það þannig, að ég hlustaði ekki í byrjun á þennan vitrasta mann þingsins, eins og hann sjálfur segir, og hafði ekki nægilegan tíma til að lesa yfir hans ræðu, svo að þetta verður kannske ekki eins ýtarlegt og ég hefði viljað. En í sambandi við frv. sjálft vil ég segja það, að það er vissulega góðra gjalda vert, að menn hafi áhuga á því að lækka útgjöld á atvinnuvegunum og framleiðslunni, og ég veit, að í mjög mörgum tilfellum erum við Björn Pálsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., sammála, að það sé ýmislegt, sem betur mætti fara. En frv., eins og það er, tel ég dálítið vanhugsað. Það er talað um að afnema 1% skatt af vinnulaunum við atvinnurekstur á skipum upp í 150 lestir. Við verðum að renna huganum aftur til ársins 1964, þegar samið var um þetta við launastéttirnar, að þessi launaskattur yrði settur á. Sannleikurinn er sá, að eins og það kom fram þá, var þetta mér þyrnir í augum og ýmsum útvegsmönnum, en það, sem útvegsmenn fóru fram á við undirbúning þessa máls, var, að 1 % launaskattur væri ekki lagður á nema miðað við kauptryggingu, og það hefði vissulega verið að mínu viti sigurstranglegra að koma með þá breyt. og reyna að ná samningum um það. Ég man það, að ég spurðist fyrir um, hvað áætlað hefði verið frá útveginum í sambandi við tekjur af þessum launaskatti, hvort þetta gæti samrýmzt, en það var ekki. Á þessu stigi málsins mun ég ekki flytja brtt., en ég álit, að það hefði verið einmitt þetta, sem hefði verið eðlilegt að verða við óskum útvegsmanna um, ef þeir hefðu ætlað að ganga til móts við þá, því að vissulega hafa útvegsmenn orðið að bera miklar byrðar, sem bæði löggjafinn hefur lagt á þá og þeir hafa sjálfir samið á sig. Í þessari löngu og yfirgripsmiklu ræðu, sem hv. þm. flutti, kom hann mjög víða við, og sumt, sem hann taldi, eru hreinir samningar á milli sjómannasamtakanna og útvegsmannasamtakanna, svo að raunverulega er ekki hægt að kenna ríkisstj. um það, það eru sem sagt ekki allar syndir guði að kenna. Ég segi þetta í sambandi við 1. gr. frv. Að mínu viti hefði það verið skynsamlegra að fara þessa leið.

Um 2. gr. vil ég segja það, að mig langar að fá skýringu á því hjá hv. flm., hvernig raunverulega á að framkvæma þá hluti, sem þar er gert ráð fyrir. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa greinina, hún er svo: „Við 2. gr. 1. bætist: Enn fremur laun sjómanna á fiskiskipum, sem eru minni en 150 lestir, og laun, sem greidd eru af fiskvinnslustöðvum vegna vinnu og verkunar fisks.“ Þetta er góðra gjalda vert. En sjá ekki hv. flm., að þetta er óframkvæmanlegt? Hvernig á að sortera vinnuna á milli fisksins, sem kemur af 160 rúml. bátnum eða kannske 200 rúml. eða hvað það nú er? En ég held, að þetta atriði, frá mínu sjónarmiði séð, sé alger fjarstæða, því að þeir, sem eitthvað þekkja til vinnu í sambandi við vinnsluna, vita, að fiskurinn er settur saman, og að fara að sundurliða vinnuna af fiskinum, sem er af hátum undir 150 rúml. og þar yfir, verður nýtt Parkinsonslögmál, sem ég held að sé ekki vert að fara að setja á fiskverkendur.

Hv. fyrri flm. þessarar till. talaði einnig um það eða lét orð að því liggja, að útreikningar þeir, sem lagðir hafa verið til grundvallar af samtökum útvegsmanna, væru þannig, að ef þeir væru réttir, væru allir útvegsmenn komnir á hausinn fyrir löngu. Nú er það viðurkennt af öllum, sem þekkja til þessara mála, að þar er reiknað með endurkaupsverði á skipum, sem viðurkennt var af ráðunaut ríkisstj. 1958, Jónasi Haralz, að taka það upp, en einmitt þeir bátar, sem fyrst og fremst vinna að hráefnisöflun bolfisksins, eru bókfærðir á allt öðru verði. Þess vegna kemur upp þessi mismunur, sem oft verður í útreikningum á milli sérfræðinganna og okkar manna. Það er vegna þess, að við að sjálfsögðu höfum viljað halda okkur við endurkaupsverðið eða byggingarverðið eða í sumum tilfellum tryggingaverðið, en ekki hið bókfærða verð. Þetta er nú út af fyrir sig. En svo er það nú þannig, að nú á síðustu árum hefur verið mjög erfitt að finna út tekjur meðalbátsins vegna mjög breyttra útgerðarhátta. Það hefur alltaf farið fækkandi þeim bátum, sem hafa stundað hinar týpísku þorskveiðar, línu- og netaveiðar, og þess vegna hefur verið erfiðara að sjá, hvernig dæmið befur verið. T.d. má skýra frá því, að Landssamband ísl. útvegsmanna taldi hækkun á útgerðarkostnaði á vertíðarbát yfir vertíðasvæðið 4.2 eða 4.3% frá síðustu vertíð, en þau gögn, sem Efnahagsstofnunin hafði fengið frá reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, töldu hana eiginlega enga. Við útfærslu á plöggum frá henni reiknuðum við það þó út, að það væri 2.3% hækkun. Svo er það annað mál, eins og ég veit, að hv. 5. þm. Norðurl. v., sem er bóndi og hefur lengi orðið að búa við samninga og úrskurði í sambandi við afurðaverð landbúnaðarvara, að það fæst ekki ávallt það, sem að er stefnt, og það, sem þarf að fá. Þessi orð mín ber ekki að skilja þannig, að afkoma útvegsins og sérstaklega þeirra, sem bolfiskveiðar stunda, sé of góð, síður en svo. En það kemur til einmitt mikið vegna breyttra útgerðarhátta og verkefnaskorts á öðrum tíma ársins. Fyrir nokkrum árum var vetrarvertíðin 4 1/2 mánuður, sem talið var eðlilegt, að stæði undir helmingnum af rekstrarkostnaði vélbátanna yfir árið. En þetta hefur með þeirri breytingu, sem orðið hefur, þ.e.a.s. það er alltaf vaxandi fjöldi báta, sem eingöngu stundar netaveiðar, og netavertíðin er ekki eðlilega nema 2 1/2 —3 mánuðir. Sumir byrja að leggja sín net fyrr, en ekki ávallt með góðum árangri. Það er þetta, sem ræður talsverðu um afkomuna, og er þess vegna ekki óeðlilegt, þó að það heyrist frá þessum mönnum, að þeir séu í vanda staddir.

Það er þess vegna mikið alvörumál og íhugunarefni fyrir þá, sem þessa atvinnu stunda, og fyrir þjóðarbúskapinn í heild og þá náttúrlega ekki hvað sízt fyrir alþm., sem þurfa að gera sér grein fyrir afkomu og möguleikum þessa undirstöðuatvinnuvegar, á hvern hátt sé hægt að finna leiðir til þess, að þessir bátar geti lengt úthaldstíma sinn og stundað veiðar með árangri. Það hefur verið talað um togveiðar. Ég ætla ekki að fara út í það atriði, vegna þess að það yrði of langt mál. Ég veit, að um það eru mjög skiptar skoðanir í hv. Alþ., og samkv. yfirlýsingu hæstv. sjútvmrh. er, eins og sakir standa, enginn vilji fyrir því eða ekki meiri hluti, til þess að ég segi það rétt, ekki meiri hl. fyrir því að fá lausn á því málí. Ýmsir hafa farið á humarveiðar, sem þekktist ekki fyrir nokkrum árum, með mismunandi árangri.

Það er síðan aflatryggingasjóður, sem útgerðin er skattlögð til að hluta, en þó kemur jafnhátt framlag frá ríkinu á móti, til þess að mæta skakkaföllum, sem útvegurinn verður fyrir, en það er þó aldrei nema upp í hluta af þeim skakkaföllum, sem menn verða fyrir. Vissulega er það rétt, að það eru margar álögur á útveginn, sem þyrftu endurskoðunar við. Það erum við hv. 5. þm. Norðurl. v. sammála um. Og ég get tekið undir t.d. um orlofið, þótt ég undrist yfir því, að sú ónákvæmni skuli koma fram í grg. frv., að flm. segja, að engar kröfur hafi verið uppi um hækkað orlof. Ég veit ekki betur en það hafi verið kröfur um að hækka það upp í 8%, og ég veit ekki betur en verkalýðsleiðtogi, hv. þm. í Ed., hafi borið fram frv. um 8% orlof, svo að þess vegna finnst mér, að það sé ekki rétt og fjarri því, að þessir menn geti sagt það, að það hafi ekki verið uppi kröfur um þetta.

Ég sagði í upphafi, að þetta mundi verða sundurlaust, því að ég hefði haft áhuga á að kynna mér betur þessa mjög svo merkilegu ræðu hv. þm., áður en umr. færi fram, en vegna anna í morgun gat ég það ekki. Ég get ekki farið svo úr þessum ræðustól að minnast ekki á eitt atriði, sem hv. þm. talaði um. Hann lét þau orð falla um fiskimálasjóð í framhaldi af setningu, sem hann sagði, og sagði orðrétt: „En ég hygg, að það sé nú í sumum tilfellum ekki allt lán, sem koma að hagkvæmum notum, sem þaðan fara.“

Eins og hv. alþm. vita, er tilgangur fiskimálasjóðs sá að stuðla að markaðsleit, ýmsum uppgötvunum og framkvæmdum og tilraunum og veita viðbótarlán, og samkv. lögum um fiskimálasjóð er heimilt að lána með áhvílandi lánum allt upp í 85% af kostnaðarverði viðkomandi framkvæmda. Ég hef hér fyrir framan mig yfirlit yfir, hverju fiskimálasjóður hefur á árunum 1956–1966 varið til markaðslána. Sú upphæð nemur kr. 8 871 412.90. Það er þannig, að eftir að l. var breytt, þ.e.a.s. úr fiskimálanefnd í fiskimálasjóð, hefur sjóðurinn ekki haft beint frumkvæði að þessum hlutum, heldur styrkir hina ýmsu aðila, og þar hafa sölufélögin verið drýgst, þ.e.a.s. sölufélög framleiðenda hafa fengið hæstu upphæðina af þessu. Það er engan veginn hægt að segja um það, hvaða árangur hefur orðið í hverju tilfelli, en með þessu fylgist að sjálfsögðu stjórn fiskimálasjóðs eftir skýrslum, sem hún fær, og metur það hverju sinni, þ.e.a.s. greiðir ekki styrkinn út fyrr en eftir að slíkt hefur farið fram. Ég hef hér einnig fyrir framan mig lista yfir styrkveitingar úr fiskimálasjóði til ýmissa veiðitilrauna, véla, tækja, smíði skipa og þess háttar, ýmissa uppgötvana o.þ.h. Það er frá því að l. um fiskimálanefnd var breytt og fiskimálasjóður var stofnaður, og nemur sú upphæð, sem veitt hefur verið í þessu skyni, kr. 15 532 844.28. Þetta er til mjög margra aðila og hinna ýmsu verkefna. Það má óefað fullyrða, að mjög margt af þessu; sem styrkt hefur verið, hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir sjávarútveginn í landinu og þar af leiðandi landsmenn alla. Ég vil nefna nokkur dæmi. Má minnast á það, að kraftblökkin, sem raunverulega hefur verið tækið, sem hefur bjargað síldveiðunum ásamt fiskleitartækjunum, sú tilraun var styrkt af fiskimálasjóði á sínum tíma ásamt ýmsum tilraunum með vélar til hagræðingar, sorteringarvélar og margt og margt fleira, fiskileitartilraunir og veiðitilraunir með nýjum veiðarfærum, — já, ég segi nýjum veiðarfærum, þ.e.a.s. bæði nýjum veiðarfærum og þekktum veiðarfærum á stöðum, þar sem þau höfðu ekki verið notuð áður, og nægir í því sambandi að minnast á Breiðafjörð og Vestfirði, en fyrir nokkrum árum höfðu aldrei verið lögð þorskanet þar, en það vita nú allir, að á þessum stöðum hefur veiðzt einmitt verulega mikið í þessi veiðarfæri og hefur fært mikla björg í bú. Það er ekki ýkjalangt síðan byrjað var að leggja þorskanet við Hornafjörð,en það verður að segja það eins og það er, að sú tilraun var gerð af einstaklingi, án þess að til aðstoðar kæmi frá fiskimálasjóði eða öðrum aðila.

Hæstvirtur flutningsmaður talaði um það, að lánunum, sem veitt væru, væri ekki alltaf úthlutað á sem skynsamlegastan hátt. Þetta er vissulega alltaf matsatriði, og bæði styrkjastarfsemi og lánveitingar, er aðilar geta fyrir fram ekki vitað um, hvernig tekst til um. En það segir í lögum um fiskimálasjóð, eins og ég sagði áðan, að það skuli veitt viðbótarlán, og það segir einnig, að staðir séu látnir sitja fyrir, þar sem lítið fjármagn er fyrir hendi. Ég hafði einmitt í fyrra látið taka saman skýrslu um, hvernig lánin lægju í hinum ýmsu lögsagnarumdæmum landsins, og er með skýrslu yfir það. Ég ætla ekki að þreyta þingheim á því að lesa þá skýrslu upp, en ég vil leyfa mér að skýra frá því, að lánveitingar í árslok 1965, þ.e.a.s. þau lán, sem ekki voru upp greidd, námu rösklega 89 millj. í upphaflegar lánveitingar, en eftirstöðvar af þeim voru 65.9 millj. kr. Nú í árslok 1966 nema útistandandi lán 75.6 millj. kr. Ég hef reiknað hér út, hvernig þessum lánveitingum hefur verið dreift um landið, og til glöggvunar ætla ég að lesa prósentutölurnar í hinum ýmsu lögsagnarumdæmum. Er þá miðað við 31. des. 1965. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu námu lánveitingarnar, sem í gangi voru á þeim tíma, 12.46%. Eftirstöðvar af þeim lánum voru 14.35%. Í Keflavík var það 7.86% upphaflega, en í gangi 7.47%. Hafnarfjörður nam 6.99%, en eftirstöðvar 6.83%. Kópavogur 1.79%, eftirstöðvar 2.1%. Reykjavík 10.87%, en eftirstöðvar 9.94%. Akranes 2.85%, eftirstöðvar 2.76%. Borgarfjarðarsýsla 0.11%, eftirstöðvar 0.04%. Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 7.14%, eftirstöðvar 6.09%. Barðastrandarsýsla 3.93%, eftirstöðvar 3.98%. Ísafjarðarsýslur 5.72% og eftirstöðvar 5.79%. Ísafjörður 2.66%, eftirstöðvar 2.49%. Strandasýsla 0.9%, eftirstöðvar 0.58%. Húnavatnssýslur 0.20%, eftirstöðvar 0.33%. Það er vissulega lágt í kjördæmi hv. 1. flm. þessa frv., sem hér er til umr., en það er vegna þess, að framkvæmdir hafa verið þar litlar. Sauðárkrókur er 0.75%, eftirstöðvar 0.70%. Siglufjörður 0,99%, eftirstöðvar 0.97%. Ólafsfjörður 2.08%, eftirstöðvar 1.68%. Akureyri 2.89%, eftirstöðvar 2.4%. Eyjafjarðarsýsla 1.39%, eftirstöðvar 1.3%. Þingeyjarsýslur, Norður- og Suður-, 4.85%, eftirstöðvar 5.41%. N-Múlasýsla 2.93%, en eftirstöðvar 3.31%. Seyðisfjörður 2.93%, eftirstöðvar 3.02%. Suður-Múlasýsla 8.69%, en eftirstöðvar 9.56%. Neskaupstaður 2.38%, eftirstöðvar 2.43%. Skaftafellssýslur 0.88%, en eftirstöðvar 0.74%. , Vestmannaeyjar 4.5%, eftirstöðvar 3.68%. Árnessýsla 2.16%, eftirstöðvar 2.14%.

Ég veit það, að þessi skýrsla segir vissulega ekki nægilega mikið um það, hvort rétt hafi verið að farið hjá stjórn fiskimálasjóðs í sambandi við lánveitingar eða styrkveitingar, en sýnir þó, að mikil dreifing hefur orðið á fé sjóðsins. Prósentan segir kannske ekki alveg það rétta, þar sem þetta nær yfir tímabil, sem breyting mikil hefur orðið á verðgildi krónunnar, en að sjálfsögðu er reiknað út frá krónunum, eins og þær voru, þegar lánin voru veitt. Mér fannst það alveg ómaklegt miðað við þau störf, sem þessi sjóður hefur unnið, að þessi orð væru látin falla um hann, og þess vegna taldi ég rétt að gefa þessar upplýsingar nú.

En að síðustu um meginefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég, eins og ég sagði í upphafi, hefði talið, að það hefði þjónað eðlilegum tilgangi að tala um breytingu þá, er ég talaði um í upphafi máls míns, þegar það er haft í huga, að það var hreinn samningur á milli verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda um launaskattinn. Og einnig væri æskilegt að fá skýringu á því, hvernig hv. flm. hugsa sér framkvæmd á 2. gr. frv.